Hamar úr leik eftir framlengingu

Ástmar Kristinn Elvarsson skoraði í sínum fyrsta leik fyrir Hamar. Ljósmynd/Hamar

Hamarsmenn eru úr leik í bikarkeppni karla í knattspyrnu eftir framlengdan leik á Þróttaravellinum í Laugardal í dag.

Skallagrímur komst yfir á 31. mínútu og staðan var 0-1 í hálfleik. Þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum hafði Ástmar Kristinn Elvarsson jafnað fyrir Hamar, í sínum fyrsta leik fyrir félagið.

Þrátt fyrir ágæta spretti tókst hvorugu liðinu að bæta við mörkum í venjulegum leiktíma og því var gripið til framlengingar. Þar skoruðu Borgnesingar tvívegis á lokamínútum framlengingarinnar og sigruðu því 1-3.

Það er því ljóst að KFR og Selfoss verða einu sunnlensku liðin í 2. umferð bikarkeppninnar. KFR heimsækir KÁ á Ásvelli næstkomandi laugardag og Selfoss heimsækir ÍH í Skessuna þann 9. apríl.

Fyrri greinBjörn sæmdur gullmerki HSK
Næsta greinSöngleikur settur á svið í Rauða Húsinu