Hamar úr leik í bikarnum

Hamar er úr leik í bikarkeppni karla í körfuknattleik eftir 83-101 tap gegn úrvalsdeildarliði Stjörnunnar 8-liða úrslitum í Frystikistunni í Hveragerði í kvöld.

Gestirnir tóku frumkvæðið strax í upphafi leiks og leiddu að loknum 1. leikhluta, 21-27. Hamar náði að minnka muninn í tvö stig í upphafi 2. leikhluta en þá tóku Stjörnumenn góðan sprett og leiddu í hálfleik, 43-58.

Hvergerðingar mættu vel stemmdir inn í seinni hálfleikinn og minnkuðu muninn í átta stig í byrjun 3. leikhluta. Stjarnan lauk leikhlutanum hins vegar á 2-15 áhlaupi og gerðu þar með út um leikinn. Staðan var 59-81 að leikhlutanum loknum en Hamar náði að klóra í bakkann í 4. leikhluta og minnka muninn í 18 stig.

Julian Nelson var stigahæstur Hvergerðinga með 26 stig og Örn Sigurðarson skoraði 21 og tók 12 fráköst. Snorri Þorvaldsson skoraði 18 stig, Þorsteinn Gunnlaugsson 8, Kristinn Ólafsson skoraði 4 og tók 10 fráköst, Stefán Halldórsson og Sigurður Orri Hafþórsson skoruðu báðir 2 stig og þeir Páll Ingason og Bjartmar Halldórsson skoruðu sitt stigið hvor.

Hjá Stjörnunni var Mýrdælingurinn Justin Shouse stigahæstur með 18 stig og Marvin Valdimarsson skoraði 13 gegn sínum gömlu félögum.

Fyrri greinFjórum starfsmönnum sagt upp
Næsta greinEnginn til að taka við starfinu