Hamar úr leik í bikarnum

Everage Richardson var frábær í liði Hamars með 32 stig og 10 fráköst. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar er úr leik í bikarkeppni karla í körfubolta eftir 77-96 tap gegn úrvalsdeildarliði Grindavíkur í Hveragerði í kvöld.

Hamar, sem spilar í 1. deildinni, hafði í fullu tré við Grindavík í 1. leikhluta en staðan að honum loknum var 25-26. Hamar komst yfir í upphafi 2. leikhluta en gaf heldur betur eftir þegar á hann leið og Grindavík var með fimmtán stiga forskot þegar hálfleiksflautan gall, 38-53.

Grindavík jók forskotið enn frekar í 3. leikhluta en síðasti fjórðungurinn var jafn og Hamar náði örlítið að klóra í bakkann.

Everage Richardson átti góðan leik fyrir Hamar og var mjög nálægt þrefaldri tvennu með 27 stig, 8 fráköst og 9 stoðsendingar.

Tölfræði Hamars: Everage Richardson 27/8 fráköst/9 stoðsendingar, Toni Jelenkovic 14, Danero Thomas 14/7 fráköst, Pálmi Geir Jónsson 10/7 fráköst, Björn Ásgeir Ásgeirsson 6, Ragnar Ragnarsson 4, Páll Helgason 2/4 fráköst, Hlynur Snær Wiium Stefánsson 0, Arnar Daðason 0, Geir Helgason 0.

Fyrri greinHeklustelpur stóðu sig vel í stökkfimi
Næsta greinIngimar kjörinn prestur á Klaustri