Karlalið Hamars í körfubolta féll úr leik í 16-liða úrslitum Poweradebikarsins í kvöld þegar liðið sótti Keflavík heim. Lokatölur voru 93-75.
Fyrsti leikhluti var í járnum framan af en Keflavík skoraði níu síðustu stigin í leikhlutanum og breyttu stöðunni úr 8-10 í 17-10. Keflavík náði tíu stiga forskoti í 2. leikhluta og leiddi 42-32 í hálfleik.
Keflavík byrjaði betur í seinni hálfleik og náði nítján stiga forskoti, 62-43, en Hamar kom til baka á lokamínútum leikhlutans og náði síðan að minnka muninn niður í þrettán stig í upphafi 4. leikhluta, 66-53. Keflavík náði síðan tuttugu stiga forskoti með 11-2 áhlaupi um miðjan lokaleikhlutann og gerði þar með út um leikinn.
Jerry Lewis Hollis var stigahæstur hjá Hamri með 16 stig, Örn Sigurðarson skoraði 15 en besti maður liðsins í kvöld var Ragnar Nathanaelsson með 14 stig og 19 fráköst.