Hamar er úr leik í bikarkeppni karla í körfubolta eftir 87-84 tap gegn Skallagrími í forkeppni bikarsins í Borgarnesi í kvöld.
Leikurinn var nokkuð jafn allan tímann en Skallagrímur leiddi 41-37 í hálfleik. Hamar svaraði fyrir sig í 3. leikhluta og þegar rúmar tvær mínútur voru eftir komust þeir yfir, 62-63.
Í upphafi 4. leikhluta kom svo góður kafli hjá Hamri og þeir náðu átta stiga forystu, 76-84 þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir. Þá lokaðist hins vegar karfan og Hvergerðingum var fyrirmunað að bæta við stigum en Skallagrímur skoraði síðustu ellefu stig leiksins og sigruðu sem fyrr segir 87-84.
Pálmi Geir Jónsson átti frábæran leik fyrir Hamar, skoraði 24 stig og tók 20 fráköst.
Tölfræði Hamars: Pálmi Geir Jónsson 24/20 fráköst, Ragnar Magni Sigurjónsson 19/6 fráköst/5 stoðsendingar, Maciek Klimaszewski 17/9 fráköst, Kristijan Vladovic 10/6 fráköst/10 stoðsendingar, Sigurður Dagur Hjaltason 5, Bjarki Friðgeirsson 5, Haukur Davíðsson 2/6 fráköst, Arnar Dagur Daðason 2/4 fráköst.