Hamar er úr leik í Poweradebikar kvenna í körfubolta eftir naumt tap gegn Val á útivelli í dag, 66-61.
Hvergerðingar voru ekki með á nótunum fyrstu mínúturnar og Valur komst í 11-0. Þá rönkuðu Hamarskonur við sér og staðan var 22-14 eftir 1. leikhluta.
Hamar spilaði fína vörn í 2. leikhluta og vann upp forskot Valskvenna smátt og smátt. Hamar skoraði sex síðustu stigin í fyrri hálfleik og leiddi 30-31 í leikhléinu.
Valur hóf seinni hálfleikinn á 12-3 áhlaupi og breytti stöðunni í 42-34 og munurinn hélst í átta stigum út leikhlutann, 51-43.
Hamar vann forskot Vals niður í 4. leikhlutanum og þegar 40 sekúndur voru eftir minnkaði Hamar muninn í tvö stig, 63-61. Valur jók forskotið strax aftur í fimm stig en hvorugu liðinu tókst að bæta við stigum á síðustu 30 sekúndunum.
Di’Amber Johnson skoraði 32 stig fyrir Hamar og tók 10 fráköst, Íris Ásgeirsdóttir skoraði 12 stig, Marín Laufey Davíðsdóttir 10 auk þess að taka 11 fráköst, Fanney Lind Guðmundsdóttir skoraði 5 stig og Jenný Harðardóttir 2.