Hamar vann að lokum – Selfoss og Hrunamenn töpuðu

Jose Aldana átti frábæran leik fyrir Hamar. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Hamar vann Fjölni eftir góðan endasprett í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Á sama tíma tapaði Selfoss gegn Álftanesi og Hrunamenn lágu gegn Breiðabliki.

Hamarsmenn sýndu ekki sparihliðarnar fyrr en á lokakafla leiksins og það voru Fjölnismenn sem höfðu undirtökin lengst af leik. Staðan var 38-45 í hálfleik. Hvergerðingar fóru hins vegar mikinn í sókninni í 4. leikhluta og náðu að tryggja sér sigurinn, 102-94.

Jose Aldana var stigahæstur Hamarsmanna með 27 stig, 13 fráköst og 9 stoðsendingar. Ruud Lutterman var sömuleiðis mjög öflugur með 24 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar.

Selfyssingar mættu Álftanesi í hörkuleik. Staðan var 45-46 í hálfleik en Álftnesingar voru sterkari í seinni hálfleik og sigruðu að lokum með 10 stiga mun, 87-97.

Kennedy Aigbogun var sterkur hjá Selfyssingum með 25 stig og 9 fráköst en Kristijan Vladovic skoraði 18 stig, tók 7 fráköst og sendi 5 stoðsendingar.

Hrunamenn sögðu á dögunum upp samningum Corey Taite og Karlo Lebo þar sem óvissa ríkti um framhald Íslandsmótsins og án sinna bestu manna áttu þeir grænu erfitt uppdráttar gegn sterku liði Breiðabliks. Blikar náðu strax góðu forskoti og staðan var 34-52 í hálfleik. Munurinn jókst jafnt og þétt í seinni hálfleik og lokatölur urðu 69-108.

Yngvi Freyr Óskarsson var stigahæstur Hrunamanna með 17 stig og 11 fráköst og Eyþór Orri Árnason skoraði 11 stig og sendi 6 stoðsendingar.

Eftir leiki kvöldsins er Hamar í 2. sæti deildarinnar með 18 stig, Hrunamenn eru í 8. sæti og Selfoss í 9. sæti en bæði lið hafa 6 stig.

Fyrri greinÁrborg úr leik í bikarnum
Næsta greinJóhann og Halldóra gefa kost á sér