Það var þvílík spenna í Hveragerði í kvöld þar sem Hamar tók á móti Vestra í 1. deild karla í körfubolta. Selfoss mætti Sindra á útivelli á Höfn í Hornafirði.
Leikur Hamars og Vestra var hnífjafn allan tímann og hin besta skemmtun. Staðan var 46-48 í leikhléi og liðin gáfu ekkert eftir í seinni hálfleik. Vestramenn náðu fimm stiga forskoti á lokamínútunni en Hamar svaraði jafn óðum og þegar þrettán sekúndur voru eftir sökkti Oddur Ólafsson glæsilegri þriggja stiga körfu og jafnaði 98-98. Framlenging.
Hamar var skrefinu á undan í framlengingunni og náði fimm stiga forskoti þegar hún var rúmlega hálfnuð. Vestri skoraði þá fimm stig í röð og jafnaði 108-108 en Everage Richardson tryggði Hamri sigurinn með vítaskoti þegar fimm sekúndur voru eftir. Vestri átti lokasóknina en þriggja stiga skot frá Nemanja Knezevic geigaði.
Richardson var stigahæstur hjá Hamri í kvöld en hann gerði sér lítið fyrir og skoraði 48 stig.
Selfyssingar sterkir í seinni hálfleik
Það var öllu minni spenna í Hornafirði þar sem Selfyssingar voru í heimsókn. Fyrri hálfleikurinn var reyndar jafn en staðan í leikhléi var 33-35. Selfyssingar voru hins vegar sterkari í síðari hálfleik og unnu að lokum með tuttugu stiga mun, 62-82.
Marvin Smith Jr. var mjög öflugur í liði Selfoss með 25 stig og 18 fráköst.
Hamar hefur nú 16 stig í 4. sæti deildarinnar en Selfoss er í 6. sæti með 12 stig.
Tölfræði Hamars: Everage Lee Richardson 48/4 fráköst, Ragnar Jósef Ragnarsson 14/4 fráköst, Oddur Ólafsson 13/4 fráköst/7 stoðsendingar, Florijan Jovanov 11, Kristófer Gíslason 9/4 fráköst, Dovydas Strasunskas 6, Geir Elías Úlfur Helgason 4, Kristinn Olafsson 2, Marko Milekic 2/7 fráköst.
Tölfræði Selfoss: Marvin Smith Jr. 25/18 fráköst, Snjólfur Marel Stefánsson 17/15 fráköst, Björn Ásgeir Ásgeirsson 11, Ari Gylfason 8, Svavar Ingi Stefánsson 6, Hlynur Hreinsson 4, Hlynur Freyr Einarsson 4, Haukur Hlíðar Ásbjarnarson 4, Bergvin Ernir Stefánsson 3/4 fráköst.