Hamar vann í framlengingu

Hamar vann tíunda leikinn í röð í Iceland Express deild kvenna í körfubolta þegar liðið sótti Hauka heim í kvöld, 73-81.

Haukar byrjuðu betur og komust í 6-0 en Hamar náði að jafna í 1. leikhluta, 15-15, en Haukar skoruðu þrjú síðustu stigin í leikhlutanum.

Haukar náðu aftur forskoti í upphafi 2. leikhluta og héldu því fram að leikhléi. Heimaliðið var mjög einbeitt en varnarleikur Hamars var ekki burðugur á köflum. Staðan var 35-31 í hálfleik.

Hamar komst yfir í fyrsta skipti strax á upphafsmínútum 3. leikhluta en þær byrjuðu hann á að skora 13 stig gegn 4 stigum Hauka. Slavica Dimovska skoraði þrjár þriggja stiga körfur á stuttum tíma og Hamar leiddi að loknum 3. leikhluta, 44-57.

Spennan magnaðist þegar dró að leikslokum en Hamar skoraði aðeins 9 stig í síðasta leikhlutanum og Haukar átu upp forskot Hamars jafnt og þétt. Haukakonur skoruðu fjórar þriggja stiga körfur á síðustu þremur mínútunum á meðan Hamar gerði aðeins 3 stig og því var staðan jöfn, 66-66, þegar lokaflautan gall.

Hamar vann svo öruggan sigur í framlengingunni þar sem 11 af 15 stigum liðsins komu af vítalínunni. Hamar komst í 66-71 en Haukar skoruðu þá fimm stig í röð og jöfnuðu. Síðustu tvær mínúturnar röðuðu Hvergerðingar svo niður vítunum á meðan ekkert gekk í sókninni hjá Haukum.

Jaleesa Butler var best í liði Hamars, skoraði 27 stig og tók 18 fráköst. Slavica Dimovska skoraði 21 stig og Kristrún Sigurjónsdóttir 10.

Fyrri greinUnnið í árfarveginum
Næsta grein800°C hiti efst í hrauninu