Hamar vann í tvíframlengdum leik

Kvennalið Hamars ásamt Karli Ágústi Hannibalssyni, þjálfara. Ljósmynd/Hamar

Hamar vann annan leik sinn í 1. deild kvenna í körfubolta í vetur þegar liðið lagði Keflavík-b í tvíframlengdum leik í Hveragerði í kvöld.

Liðin eru á sitthvorum endanum á stigatöflunni, Keflavík-b í toppbaráttunni, en Hamar við botninn. Það var ekki að sjá í kvöld því þegar Hamar hristi af sér hrollinn eftir 1. leikhluta spilaði liðið fantavel. Staðan var 39-43 í leikhléi en Hamar komst yfir í 3. leikhluta með góðum varnarleik.

Lokamínúturnar voru spennandi, Keflavík jafnaði 73-73 þegar 2:45 mín voru eftir af leiknum en Hamar komst aftur yfir í kjölfarið. Gestirnir skoruðu hins vegar síðustu fjögur stigin í venjulegum leiktíma og tryggðu sér framlengingu.

Jafnræði var með liðunum í framlengingunni en Keflavík náði frumkvæðinu undir lokin. Íris Ásgeirsdóttir setti hins vegar niður þriggja stiga skot þegar fjórar sekúndur voru eftir og því þurfti að framlengja aftur, 83-83.

Í annarri framlengingu var Keflavík skrefinu á undan lengst af, en Hamar skoraði síðustu átta stigin í leiknum, þar sem Íris raðaði niður fjórum vítaskotum og Hamar tryggði sér sætan sigur, 104-98.

Hamar er í 6. sæti deildarinnar með 4 stig en Keflavík-b í 2. sæti með 16 stig.

Tölfræði Hamars: Íris Ásgeirsdóttir 35/5 fráköst/8 stoðsendingar, Álfhildur E. Þorsteinsdóttir 19/24 fráköst/9 stoðsendingar, Helga Sóley Heiðarsdóttir 17/4 fráköst, Jenný Harðardóttir 14/15 fráköst, Gígja Marín Þorsteinsdóttir 8, Rannveig Reynisdóttir 4, Perla María Karlsdóttir 4, Þórunn Bjarnadóttir 3/7 fráköst, Una Bóel Jónsdóttir 0, Dagrún Inga Jónsdóttir 0.

Fyrri greinSigríður Ósk ráðin framkvæmdastjóri
Næsta greinElísabet heillaði alla með fallegum söng