Hamar vann Stjörnuna í stórskemmtilegum leik á útivelli í Domino’s-deild kvenna í körfubolta í kvöld. Þetta var fyrsti sigur Hamars síðan 14. nóvember síðastliðinn.
Stjarnan hafði frumkvæðið í 1. leikhluta og leiddi að honum loknum, 16-9. Hamar náði að minnka muninn í eitt stig í 2. leikhluta, 20-19, en staðan í hálfleik var 29-26, Stjörnunni í vil.
Heimaliðið virtist svo ætla að gera út um leikinn strax í upphafi síðari hálfleiks þar sem þær gerðu 12-2 áhlaup og breyttu stöðunni í 41-28. Hamarskonur náðu að minnka muninn í 43-35 áður en síðasti fjórðungurinn hófst en þar fóru Hvergerðingar á kostum og tryggðu sér sigurinn.
Hamar komst yfir þegar rúmar tvær mínútur voru eftir af leiknum, 57-58, og Stjarnan átti engin svör við þessu áhlaupi gestanna. Hamar náði 3-15 kafla á síðustu mínútum leiksins og lokatölur leiksins urðu 59-64.
Þetta er annar sigur Hamars í deildinni í vetur en liðið vann síðast Keflavík á heimavelli þann 14. nóvember. Liðið er nú með 4 stig í botnsæti deildarinnar.
Tölfræði Hamars: Alexandra Ford 28 stig/8 fráköst/6 stoðsendingar (22 í framlag), Íris Ásgeirsdóttir 13 stig/6 fráköst/5 stolnir, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 8 stig/13 fráköst, Heiða Björg Valdimarsdóttir 6 stig/4 fráköst, Nína Jenný Kristjánsdóttir 5 stig, Jenný Harðardóttir 3 stig, Jóhanna Herdís Sævarsdóttir 1 stig/9 fráköst.