Hamar vann öruggan sigur á nágrönnum sínum frá Selfossi í 1. deild karla í körfubolta í Frystikistunni í Hveragerði í kvöld, 99-83.
Hamar fór langt með að klára leikinn í 1. leikhluta þar sem Hvergerðingar náðu mest 21 stigs forskoti, 34-13. Selfyssingar náðu að minnka muninn í 2. leikhluta en staðan í hálfleik var 58-47.
Munurinn varð minnstur níu stig í upphafi seinni hálfleiks en þá bættu Hamarsmenn í og héldu Selfyssingum í öruggri fjarlægð út leikinn.
Christian Cunningham var besti maður vallarins í kvöld en hann skoraði 28 stig og tók 14 fráköst fyrir Selfoss. Hjá Hamri var Michael Philips atkvæðamestur, hann skoraði 32 stig og tók 8 fráköst.
Hamar er í 2. sæti deildarinnar með 38 stig en Selfoss er í 6. sæti með 16 stig.
Tölfræði Hamars: Michael Philips 32/8 fráköst, Everage Richardson 19/5 fráköst/7 stoðsendingar, Björn Ásgeir Ásgeirsson 16/5 stoðsendingar, Geir Elías Helgason 11, Matej Buovac 7/9 fráköst/3 varin skot, Styrmir Snær Þrastarson 4/9 fráköst, Pálmi Geir Jónsson 4/4 fráköst, Ragnar Jósef Ragnarsson 4, Bjarni Rúnar Lárusson 2, Arnar Daðason 0, Ísak Sigurðarson 0, Hlynur Snær Wiium Stefánsson 0.
Tölfræði Selfoss: Christian Cunningham 28/14 fráköst, Kristijan Vladovic 21/5 fráköst, Ragnar Magni Sigurjónsson 16, Maciek Klimaszewski 6/6 fráköst, Sigmar Jóhann Bjarnason 4, Sveinn Hafsteinn Gunnarsson 3, Svavar Ingi Stefánsson 3, Arnór Bjarki Ívarsson 2, Bjarki Friðgeirsson 0, Arnór Bjarki Eyþórsson 0, Alexander Gager 0.