Hamar vann öruggan sigur á toppliði Ýmis í 4. deild karla í knattspyrnu á Grýluvelli í kvöld. Á sama tíma sigraði Árborg Skallagrím í Borgarnesi.
Hamar kom Ýmismönnum í opna skjöldu með frábærri byrjun í kvöld en eftir átján mínútur var staðan orðin 3-0. Óliver Þorkelsson skoraði fyrstu tvö mörk Hamars og Máni Snær Benediktsson bætti því þriðja við. Staðan var 3-0 í hálfleik en Hamarsmenn léku nánast allan seinni hálfleikinn manni færri eftir að Torfi Már Markússon fékk sitt annað gula spjald á 50. mínútu. Á 70. mínútu minnkaði Ýmir muninn en Máni Snær kom Hamri í 4-1 þremur mínútum síðar og Óliver gerði síðan endanlega út um leikinn með marki af vítapunktinum á 83. mínútu og kórónaði þar með þrennu sína. Ýmismenn áttu lokaorðið skömmu fyrir leikslok en úrslitin voru ráðin og Hamar sigraði 5-2.
Árborg heimsótti Skallagrím í Borgarnes. Leikurinn var markalaus allt fram undir miðjan seinni hálfleikinn þegar Þorkell Þráinsson kom Árborgurum yfir. Elvar Orri Sigurbjörnsson gerði svo út um leikinn með öðru marki Árborgar níu mínútum fyrir leikslok. Lokatölur 0-2.
Staðan í deildinni er þannig að Hamar er í 2. sæti með 20 stig, tveimur stigum á eftir Ými og með gott forskot á Árborg sem er í 3. sætinu með 15 stig.