Hamar vann toppslaginn

Jose Medina. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Karlalið Hamars í körfubolta kvaddi jólin í kvöld með sterkum sigri á Ármenningum í Frystikistunni í Hveragerði, 100-89.

Sigurinn var Hamri mikilvægur en með honum jöfnuðu Hvergerðingar Ármann að stigum á toppi deildarinnar. Staðan í deildinni er nú þannig að bæði lið eru með 18 stig en Ármenningar standa betur í innbyrðis viðureignum.

Hamarsmenn voru frábærir í fyrri hálfleiknum og leiddu í leikhléi, 62-45. Hvergerðingar juku forskotið í 21 stig í upphafi seinni hálfleiks en þá hertu Ármenningar sig í vörninni og aðeins fór að draga saman með liðunum.

Í fjórða leikhluta hljóp svo mikil spenna í leikinn en Ármann minnkaði muninn í fimm stig þegar tæpar tvær mínútur voru eftir. Hamar hélt sínu striki í lokin og varðist frekari áhlaupum gestanna og vann að lokum ellefu stiga sigur.

Jose Medina átti frábæran leik fyrir Hamar, skoraði 40 stig, sendi 13 stoðsendingar og tók 6 fráköst. Jaeden King skoraði 26 stig og Fotios Lampropoulos skilaði góðu framlagi með 15 stig og 11 fráköst.

Hamar-Ármann 100-89 (35-23, 27-22, 17-20, 21-24)
Tölfræði Hamars: Jose Medina 40/6 fráköst/13 stoðsendingar, Jaeden King 26, Fotios Lampropoulos 15/11 fráköst/5 stoðsendingar, Björn Ásgeir Ásgeirsson 9/6 fráköst, Lúkas Aron Stefánsson 6/6 fráköst, Ragnar Agust Nathanaelsson 4/7 fráköst.

Fyrri grein„Nú erum við orðin ein heild“
Næsta greinFrábær stemning á þrettándagleði