Hamar vann góðan sigur á Stjörnunni þegar liðin mættust í Hveragerði í dag í Domino's-deild kvenna í körfubolta.
Hamar og Stjarnan eru langneðst í deildinni en með sigrinum jafnaði Hamar Stjörnuna að stigum, bæði lið hafa nú sex stig. Liðin þurfa þó ekki að hafa áhyggjur af falli, því ekkert lið fellur úr Domino’s-deild kvenna í ár.
Hamar byrjaði leikinn betur og leiddi 27-20 að loknum fyrsta leikhluta. Forskotið jókst í 2. leikhluta og staðan í hálfleik var 46-36.
Hvergerðingar náðu mest sextán stiga forskoti í upphafi seinni hálfleiks en Stjarnan svaraði fyrir sig og minnkaði muninn hægt og bítandi. Þegar fjórar mínútur voru eftir var munurinn kominn niður í fimm stig, 70-65, en nær komust Stjörnukonur ekki og lokatölur urðu 82-70.
Síðasti leikur Hamars í vetur er næstkomandi þriðjudag á útivelli gegn Haukum.
Tölfræði Hamars: Alexandra Ford 29 stig/7 fráköst/7 stoðsendingar, Íris Ásgeirsdóttir 19 stig/4 fráköst, Salbjörg Sævarsdóttir 15 stig/7 fráköst, Jenný Harðardóttir 6 stig, Heiða Valdimarsdóttir 5 stig, Jóhanna Sævarsdóttir 4 stig/12 fráköst, Nína Jenný Kristjánsdóttir 4 stig/4 fráköst, Hrafnhildur Magnúsdóttir 6 fráköst.