Hamar vann sinn fyrsta leik í 2. deild karla í knattspyrnu í sumar þegar liðið fékk Njarðvík í heimsókn á Grýluvöll. Lokatölur voru 1-0.
Hamarsmenn byrjuðu betur og fengu tvö færi á fyrstu tíu mínútum leiksins. Á 6. mínútu barst boltinn fyrir mark Njarðvíkur þar sem einn gestanna rak tána í boltann en markvörður Njarðvíkur varði vel og bjargaði félaga sínum frá slysalegu sjálfsmarki. Tveimur mínútum síðar flengdi Arnþór Ingi Kristinsson boltanum fyrir mark Njarðvíkur en Ingþór Björgvinsson kiksaði illa úr góðri stöðu í miðjum vítateignum.
Á 16. mínútu átti Arnþór frábæra sendingu innfyrir á Sene Abdalha. Senegalinn missti boltann aðeins frá sér en náði þó skoti að marki sem markvörður Njarðvíkur varði vel.
Hamar hafði góð tök á leiknum í fyrri hálfleik og fundu lítið fyrir fjarveru fyrirliðans Ágústs Örlaugs Magnússonar sem var í leikbanni vegna uppsafnaðra gulra spjalda. Ingþór Björgvinsson barðist vel á miðjunni og Arnþór Ingi átti mjög góðan leik og var maðurinn á bakvið flestar sóknir Hamars. Njarðvíkingar fengu engin opin færi í fyrri hálfleik og sköpuðu helst hættu með hálffærum eftir föst leikatriði.
Á 36. mínútu átti Örn Rúnar Magnússon góða sendingu upp hægri kantinn á Ragnar Valberg Sigurjónsson sem sendi boltann fyrir markið. Markvörður Njarðvíkur náði hins vegar að komast inn í sendinguna á síðustu stundu en Aron Smárason var dauðafrír í markteignum.
Mótlætið var farið að fara í taugarnar á Njarðvíkingum sem ætluðu greinilega að fara í gönguferð um Grýluvöll í sumarblíðunni. Hamarsmenn voru einfaldlega miklu betri í fyrri hálfleik þrátt fyrir að ná ekki að skora en staðan var 0-0 í hálfleik.
Það fór ekki framhjá neinum vallargesti að Gunnar Jónsson, þjálfari Njarðvíkur, tók hárblásararæðu á sína menn í hálfleik. Það skilaði þó litlu nema snyrtilegum hárgreiðslum því strax eftir 35 sekúndur í seinni hálfleik voru Hamarsmenn komnir yfir. Eftir klafs úti á velli fékk Ragnar Valberg boltann innfyrir og kláraði hann færið af yfirvegun framhjá markverði Njarðvíkur.
Hamar féll aftar á völlinn eftir markið og lifði hættulegu lífi á tímabili en Njarðvíkingar sóttu meira og áttu nokkur mjög hættuleg færi. Á 52. mínútu missti Sene t.d. boltann klaufalega á miðjum vellinum og Njarðvík geystist í sókn en Björn Aðalsteinsson, sem átti fínan leik í marki Hamars varði mjög vel.
Fjórum mínútum síðar kom sending frá hægri inn að vítateig Njarðvíkur þar sem Arnþór flikkaði boltanum áfram á Sene. Hann gerði vel að leika á tvo varnarmenn Njarðvíkur en lét svo verja frá sér í horn úr dauðafæri í teignum. Uppúr hornspyrnunni fengu Hamarsmenn annað færi þegar Ragnar átti skot rétt framhjá af stuttu færi.
Njarðvíkingar voru áfram meira með boltann en Hamar átti hættulegar skyndisóknir. Á 75. mínútu fékk Ragnar Valberg boltann eftir sprett á hægri kantinum. Hann sendi frábæra sendingu fyrir markið á Sene sem var galopinn á markteignum en skaut yfir markið. Næstu mínútur voru mjög líflegar því strax í næstu sókn varði Björn mjög vel í marki Hamars sem sneri vörn í sókn og nú sendi Sene góðan bolta fyrir markið þar sem Ingþór hitti boltann illa og skaut framhjá úr þröngu færi.
Á 85. mínútu fengu Hamarsmenn aukaspyrnu og uppúr henni skoraði Andy Pew mark af stuttu færi eftir klafs í teignum. Andy var hins vegar réttilega dæmdur rangstæður en tæpt var það.
Síðasta færi leiksins féll í hlut Njarðvíkinga sem tóku aukaspyrnu inn á vítateig Hamars. Einn Njarðvíkinga flikkaði boltanum að marki en Björn kom til varnar á síðustu stundu og inn fór boltinn ekki.
Þetta var fyrsti deildarsigur Hamars síðan 6. ágúst í fyrra og fögnuðu þeir skiljanlega vel í leikslok. Hamar er þó áfram í 10. sæti, nú með átta stig og minnkuðu þeir forskot Njarðvíkur í 9. sæti niður í fjögur stig.
Næsti leikur Hamars er á laugardaginn gegn KF á Siglufirði.