Hamar heimsótti topplið Álftaness í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann en það fór svo að lokum að Álftanes kreisti fram 98-94 sigur.
Staðan í hálfleik var 51-48 og allan seinni hálfleikinn var leikurinn í járnum. Þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir leiddi Hamar 85-86 en þá kom smá hikst í sókn Hvergerðinga og Álftanes skoraði sjö stig í röð. Elías Bjarki Pálsson og Daði Berg Grétarsson negldu niður mikilvægum þristum á lokamínútunum en Álftnesingar héngu á forystunni og tryggðu sér sigurinn með þriggja stiga körfu þegar níu sekúndur voru eftir.
Jose Medina var stigahæstur Hamarsmanna með 33 stig og 7 stoðsendingar. Ragnar Nathanaelsson var sömuleiðis mikilvægur með 12 stig og 19 fráköst.
Hamar er í 3. sæti deildarinnar með 12 stig en Álftanes er á toppnum með 20 stig.
Tölfræði Hamars: Jose Medina 33/7 stoðsendingar, Elías Bjarki Pálsson 21, Ragnar Nathanaelsson 12/19 fráköst/3 varin skot, Mirza Sarajlija 10/6 fráköst, Björn Ásgeir Ásgeirsson 8, Daði Berg Grétarsson 7/5 fráköst, Alfonso Birgir Gomez 3.