Hamar vann sannfærandi 4-0 sigur á Aftureldingu í 2. deild karla í knattspyrnu á Grýluvelli í kvöld.
Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik og bæði lið fengu ákjósanleg færi en tókst ekki að skora og því var staðan 0-0 í hálfleik.
Hvergerðingar létu hins vegar sverfa til stáls í seinni hálfleik og strax á 47. mínútu skoraði Aron Smárason með skalla eftir hornspyrnu.
Aron lét aftur til sín taka í vítateig Aftureldingar á 70. mínútu en var togaður niður og Hamarsmenn fengu víti. Ágúst Örlaugur Magnússon fór á punktinn og skoraði af öryggi.
Lánsmaðurinn frá Selfossi, Abdoulaye Ndiaye, lék á alls oddi í seinni hálfleik og hann skoraði tvö mörk á fimm mínútna kafla undir lok leiks. Á 78. mínútu fengu Hamarsmenn aukaspyrnu, Ragnar Sigurjónsson skallaði fyrir markið og þar kom Ndiaye aðvífandi og potaði boltanum í netið.
Seinna mark hans var öllu glæsilegra þegar hann fékk boltann á vítateignum og plataði Mosfellinga með liprum fótahreyfingum áður en hann hamraði boltann í markhornið.
Stigin þrjú voru Hamri virkilega mikilvæg því á sama tíma gerðu Fjarðabyggð og KFR 1-1 jafntefli í uppgjöri botnliðanna. Hamar er nú með 11 stig í 10. sæti, Fjarðabyggð hefur 6 og KFR 5.