Karlalið Hamars féll úr leik í 8-liða úrslitum Lengjubikarsins í kvöld eftir 97-85 tap gegn Keflavík á útivelli.
Keflvíkingar byrjuðu betur í leiknum og náði mest 22 stiga forskoti í upphafi 2. leikhluta. Hamar kom til fyrir leikhlé og staðan í hálfleik var 51-51. Leikurinn var jafn í 3. fjórðungi en undir lokin sigu Keflvíkingar aftur framúr.
Svavar Páll Pálsson var stigahæstur hjá Hamri með 23 stig. Nerijus Taraskus skoraði 18 stig og tók 10 fráköst, Darri Hilmarsson skoraði 15 stig og Ellert Arnarson 12.
Annað kvöld taka Hamarskonur á móti Keflavík í undanúrslitum Lengjubikars kvenna.