Kvennalið Hamars feitletraði sig í sögubókum félagsins í kvöld með því að vinna deildarmeistaratitilinn í Iceland Express-deild kvenna þrátt fyrir tap gegn KR, 57-63.
Um leið og lokaflautið gall í Hveragerði var staðfest að Haukar unnu óvæntan sigur á Keflavík og þar með var titillinn Hamarskvenna.
Hamarsliðið var ekki sannfærandi í leiknum í kvöld og eftir slakan fyrri hálfleik var staðan 30-42 fyrir KR.
Hamar girti sig í brók, hélt KR í fjórum stigum í 3. leikhluta og komst yfir með síðasta skoti leikhlutans, 47-46. Fjórði leikhluti var æsispennandi en þegar leið að lokum voru KR-ingar einbeittari og unnu sanngjarnan sigur.
Við tók nokkurra sekúndna svekkelsi hjá Hamarsliðinu en þegar úrslitin í Keflavík voru ljós ærðist allt af fögnuði.
Hjá Hamri skoraði Jaleesa Butler 18 stig auk þess sem hún tók 18 fráköst. Fyrirliðinn Íris Ásgeirsdóttir kom næst með 12 stig.