Hamarskonur öruggar í undanúrslit

Hamarskonur tryggðu sér sæti í undanúrslitum Iceland Express-deildar kvenna í körfubolta í kvöld með 71-62 sigri á Haukum á heimavelli.

Þetta var fimmtándi sigurleikur Hamars í röð í deildinni en á sama tíma tapaði KR fyrir Keflavík. Það er því ljóst að Hamar getur ekki lent neðar en í 2. sæti A-riðils en efstu tvö sætin gefa farmiða beint í undanúrslit deildarinnar að lokinni riðlakeppninni.

Leikurinn var fyrsti leikur Hamars í A-riðli deildarinnar sem hefur nú verið skipt í tvo fjögurra liða riðla. Leiknir verða sex leikir, heima og að heiman, gegn öllum liðum sem saman eru í riðli en að því loknu hafa öll lið leikið 20 leiki.

Deildinni hefur nú verið skipt upp í tvo fjögurra liða riðla og fara efstu tvö lið úr A-riðli beint í undanúrslit en næstu tvö í A-riðli leika um tvo laus sæti í undanúrslitum gegn efstu tveim í B-riðli.

Það var ekki leikinn mjög áferðarfallegur körfubolti í Hveragerði í kvöld og Hamarsliðið var langt frá sínu besta. Burðarásinn Jaleesa Butler var ekki að finna sig stærstan hluta leiksins og Hamar náði aldrei að hrista Haukana af sér en bæði lið voru nokkuð í ströggli í sókninni. Staðan var 35-29 í hálfleik.

Slavica Dimovska var stigahæst hjá Hamri með 18 stig, Kristrún Sigurjónsdóttir skoraði 17 og Jaleesa Butler 15 auk þess að taka 15 fráköst. Guðbjörg Sverrisdóttir skoraði 10 stig, Íris Ásgeirsdóttir 8 og Fanney Guðmundsdóttir 3.

Fyrri greinHaraldur jafnaði besta tíma sinn
Næsta greinFrjó umræða á málþingi Upplits