Hamar lagði Grindavík á útivelli, 75-81, þegar liðin mættust í Iceland Express-deild kvenna í körfubolta í dag.
Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en að honum loknum leiddu Grindvíkingar, 39-35.
Hamar lagði grunninn að sigrinum með góðum leikkafla í 3. leikhluta þar sem þær náðu átta stiga forystu, 51-59. Síðasti fjórðungurinn var jafn en Hamarskonur vörðu forskotið vel og unnu að lokum sex stiga sigur.
Slavica Dimovska skoraði 25 stig fyrir Hamar og Jaleesa Butler 22 stig auk þess að taka 15 fráköst. Næst þeim kom Fanney Lind Guðmundsdóttir með 13 stig.
Hjá Grindavík var Charmaine Clark stigahæst með 21 stig.
Hamarskonur eru taplausar eftir fjórar umferðir og mæta KR í næsta leik á heimavelli.