Kvennalið Hamars tapaði 3-1 gegn Grindavík á útivelli í 2. deildinni í knattspyrnu í dag.
Þetta var hörkuleikur í rigningunni í Grindavík en það voru heimakonur sem komust yfir rétt fyrir hálfleik og staðan var 1-0 í leikhléi.
Grindavík tvöfaldaði forystu sína á þriðju mínútu seinni hálfleiks og Hamar lenti því 2-0 undir á sex mínútna kafla. Þriðja mark Grindavíkur leit dagsins ljós tíu mínútum fyrir leikslok en Íris Sverrisdóttir minnkaði muninn fyrir Hamar á lokamínútunni og lokatölur urðu 3-1.
Hamar er í 6. sæti deildarinnar með 14 stig en Grindavík er í hörku toppbaráttu og hefur nú 26 stig í 2. sæti deildarinnar.