Hamarsmenn áfram ósigraðir

Hamarsmenn kátir í leikslok. Ljósmynd/Aðsend

Hamarsmenn hófu aftur keppni í Mizuno deildinni í blaki í dag eftir langt sóttvarnahlé þegar Fylkir kom í heimsókn í Frystikistuna í Hveragerði.

Hamarsmenn mættu vel stemmdir til leiks og sáust merkilega góð tilþrif miðað við takmarkaða möguleika til æfinga undanfarnar vikur.

Heimamenn unnu fyrstu hrinuna auðveldlega 25-13 en í annarri hrinu virtist sem Hamarsliðið tapaði einbeitingu og Fylkismenn fengu þónokkuð af stigum vegna mistaka heimamanna. Fylkismenn gengu á lagið og komust yfir 16-15. Þá vöknuðu Hamarsmenn til lífsins og unnu hrinuna 25-18. Þriðja og síðasta hrinan var jöfn framan af og héngu Fylkismenn inn í leiknum fram í miðja hrinu en eftir það jókst bilið jafnt og þétt og brekka Fylkismanna varð brattari og brattari. Fór svo að Hamar vann hrinuna með 25 stigum gegn 17 og leikinn þar með 3-0.

Hamarsmenn sitja því á toppi deildarinnar ásamt HK en bæði lið hafa unnið alla þrjá leiki sína 3-0.

Stigahæstur í liði Hamars var Jakub Madej með 16 stig en í liði Fylkis var Bjarki Benediktsson stigahæstur með 11 stig.

Fyrri greinBjarki Már funheitur gegn Alsír
Næsta greinGóður sigur í fyrsta heimaleik vetrarins