Hamarsmenn fögnuðu í Njarðvík

Hamar er í toppbaráttu 2. deildar karla eftir góðan 2-3 útisigur á Njarðvík í kvöld.

Hamar byrjaði vel og sló heimamenn út af laginu með marki strax á 2. mínútu. Þar var Haraldur Hróðmarsson að verki.

Njarðvíkingar sóttu svo í sig veðrið og jöfnuðu á 15. mínútu með marki beint úr aukaspyrnu. Þetta gaf Njarðvíkingum byr í seglin og þeir bættu við öðru marki á 30. mínútu.

Sveinn Ingi Einarsson jafnaði leikinn með frábæru skoti eftir hornspyrnu á 41. mínútu og staðan var 2-2 í hálfleik.

Hamarsmenn náðu svo forystunni á 60. mínútu og var þar að verki Björn Ívar Björnsson. Þetta reyndist sigurmark leiksins en Njarðvikingar fengu vítaspyrnu í kjölfarið sem Björn Aðalsteinsson, markvörður Hamars, varði.

Hamar barðist vel fyrir stigunum þremur á lokakaflanum og hleyptu Njarðvíkingum ekki nærri sér.

Með sigrinum fór Hamar upp í 3. sæti deildarinnar með 12 stig, eins og Fjarðabyggð, en Höttur er í efsta sætinu með 13 stig og á leik til góða.

Fyrri greinÁrborgarar klaufar að klára ekki
Næsta greinÖlvaðir ökumenn í tveimur slysum