Það gekk á ýmsu hjá sunnlensku liðunum í C-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í dag. Samtals voru skoruð 27 mörk í fjórum leikjum liðanna.
Hamar vann auðveldan sigur á KFB. Pétur Smári Sigurðsson kom Hamri yfir strax á 3. mínútu og reyndist það eina mark fyrri hálfleiks. Fjörið byrjaði fyrir alvöru í seinni hálfleik þegar Hamar bætti við fjórum mörkum. Atli Þór Jónasson skoraði tvö og þeir Arnór Ingi Davíðsson og Aðalsteinn Örn Ragnarsson skoruðu sitt markið hvor. Lokatölur 0-5 og Hamar er á toppnum í sínum riðli.
Uppsveitir töpuðu 5-3 gegn Álftanesi í mögnuðum leik á Álftanesi, sem verður líklega helst minnst fyrir það að Guðjón Örn Sigurðsson, fyrirliði Uppsveita, skoraði þrennu af sjálfsmörkum í leiknum. Þetta voru ekki einu sjálfsmörk Uppsveita í dag því Daniel Boca skoraði eitt til. Staðan var 4-3 í hálfleik og Álftanes bætti við einu marki í seinni hálfleik. Markaskorarar Uppsveita voru Kristinn Sölvi Sigurgeirsson (2) og Pétur Geir Ómarsson.
Það var einnig markaveisla í leik Árbæjar og Árborgar á Fylkisvellinum. Sindri Þór Arnarson kom Árborg yfir um miðjan fyrri hálfleikinn en Árbær jafnaði úr vítaspyrnu á 31. mínútu. Staðan var 1-1 í hálfleik en Árbær skoraði fjögur mörk í röð í seinni hálfleiknum áður en Magnús Hilmar Viktorsson og Sindri Þór náðu að svara fyrir Árborg, lokatölur 5-3 – Árbæ í vil.
Að lokum mættust Stokkseyri og Skallagrímur í Akraneshöllinni. Það er skemmst frá því að segja að Skallagrímur sigraði 6-0 og þar með lýkur þessari yfirferð.