Karlalið Hamars mun leika gegn Val eða Þór Ak. um laust sæti í Domino's-deildinni í körfubolta. Hamar sópaði Hetti út úr úrslitakeppninni með 68-73 sigri á Egilsstöðum í kvöld.
Eins og í fyrri leiknum í einvíginu var fyrri hálfleikurinn jafn og spennandi. Staðan var 39-34, heimamönnum í vil, í hálfleik.
Hattarmenn juku forskotið lítillega í 3. leikhluta en í þeim fjórða skelltu Hvergerðingar í lás og tryggðu sér sigurinn. Höttur skorað aðeins níu stig í síðasta fjórðungnum en Hamar lauk síðustu fjórum mínútum leiksins með 5-14 áhlaupi og breytti stöðunni úr 63-61 í 68-73.
Jerry Lewis Hollis var stigahæstur hjá Hamri með 22 stig og 11 fráköst. Oddur Ólafsson skoraði 12 stig, Örn Sigurðarson 11, Ragnar Á. Nathanaelsson og Halldór Gunnar Jónsson 9, Þorsteinn Már Ragnarsson 7 og Lárus Jónsson 3.
Á sunnudaginn kemur í ljós hvort Hamar mætir Val eða Þór Ak í úrslitaeinvíginu en hvort lið hefur unnið einn leik hingað til og mætast þau að Hlíðarenda á sunnudag.