Hamar og topplið KV gerðu 1-1 jafntefli á Grýluvelli í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld.
Gestirnir höfðu undirtökin í leiknum nær allan tímann og sóttu mikið en Hamar spilaði vel skipulagðan varnarleik og KV tókst ekki að skora þrátt fyrir þunga sókn í fyrri hálfleik.
Staðan var 0-0 í hálfleik og það sama var uppi á teningnum í seinni hálfleik. KV var meira með boltann en Hamar gaf fá færi á sér. Hvergerðingar komust síðan yfir á 65. mínútu þegar þeir uppskáru vítaspyrnu í einni af skyndisóknum sínum.
Ágúst Örlaugur Magnússon fór á punktinn og skoraði af öryggi. Eftir markið þyngdust sóknir KV nokkuð og Vesturbæingar jöfnuðu síðan leikinn þegar rúmar tíu mínútur voru eftir.
Bæði lið gerðu sig líkleg á síðustu tíu mínútunum en gestirnir voru nær því að skora eftir snarpa sókn upp hægra megin. Björn Aðalsteinsson, markvörður Hamars, kom þá sínum mönnum til bjargar þegar hann setti fingurgómana í gott skot KV manns og varði boltann í stöngina og út.
Þetta var annað stig Hamars í deildinni í sumar en liðið er í 11. sæti deildarinnar, einu sæti fyrir ofan KFR en liðin mætast á Hvolsvelli á fimmtudaginn í næstu viku.