Hamar vann góðan sigur á Val í 1. deild karla í körfubolta í kvöld þegar liðin í 3. og 4. sæti deildarinnar mættust í Hveragerði.
Hamar byrjaði betur og komst í 14-6 en Valur svaraði strax fyrir sig og leiddi að loknum 1. leikhluta, 18-21. Hamarsmenn voru hins vegar sterkari í 2. leikhluta og leiddu í hálfleik, 39-36.
Hvergerðingar mættu vel stemmdir inn í seinni hálfleikinn og náðu þrettán stiga forskoti, 61-48, en þegar síðasti fjórðungurinn hófst var staðan 65-54.
Hamar byrjaði vel í 4. leikhluta og jók forskotið í 71-56 þegar þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum. Hvergerðingar skoruðu hins vegar ekki nema þrjú stig á síðustu sjö mínútum leiksins og gestirnir söxuðu jafnt og þétt á forskotið.
Þannig gerði Valur 3-17 áhlaup og sigur Hamars hékk á bláþræði en að lokum skildi eitt stig liðin að, 74-73, og Hvergerðingar önduðu léttar.
Julian Nelson skoraði 30 stig fyrir Hamar, Örn Sigurðarson 12 og Þorsteinn Gunnlaugsson 10 auk þess sem hann tók 10 fráköst. Snorri Þorvaldsson skoraði 7 stig, Bjarni Rúnar Lárusson og Kristinn Ólafsson 4, Sigurður Orri Hafþórsson og Mikael Kristjánsson 3 og Bjartmar Halldórsson 1.
Hamar er í 3. sæti deildarinnar með 20 stig og hefur nú sex stiga forskot á Val í 4. sætinu, en Valsmenn eiga leik til góða.