Hamar tryggði sér í kvöld sæti í úrslitakeppni 4. deildar karla í knattspyrnu með því að leggja Kríu að velli á Grýluvelli, 5-1.
Hamar komst yfir á 14. mínútu með marki Hrannars Einarssonar en gestirnir jöfnuðu rúmum tíu mínútum síðar. Hvergerðingar létu ekki segjast og gerðu út um leikinn með þremur mörkum á síðustu fimmtán mínútum fyrri hálfleiks. Daníel Rögnvaldsson og Páll Pálmason skoruðu báðir og Hrannar bætti við sínu öðru marki, 4-1 í hálfleik.
Í upphafi síðari hálfleiks bætti Páll svo við fimmta marki Hamars og þar við sat.
Hamar hefur nú 30 stig í 2. sæti riðilsins þegar tvær umferðir eru eftir, en á ekki möguleika á að ná KH sem er í toppsætinu með 37 stig. Fari sem horfir mun Hamar mæta Hvíta riddaranum frá Mosfellsbæ í 8-liða úrslitum.