Hamberg og Lindgren Norðurlandameistarar

Norðurlandameistaramót í 10 km hlaupi karla og kvenna fór fram á nýja frjálsíþróttavellinum á Selfossi í dag. Finnar sigruðu bæði í karla- og kvennaflokki.

Níu kepptu í karlaflokki og þar sigraði Finninn Jarkko Hamberg á 30:35,90 mín. Meirihluti keppendanna hljóp í þéttum hóp allan tímann en Hamberg reif sig frá keppinautunum á síðustu 400 metrunum.

Mikil barátta var um annað sætið en Michael Nielsen frá Danmörku varð annar á 30:38,13 mín, 0,24 sekúndum á undan félaga sínum Morten Fransen.

Í kvennaflokki voru átta keppendur og þar hafði Elina Lindgren frá Finnlandi nokkra yfirburði. Lindgren hljóp á 35:06,64 mín en önnur varð Louise Wiker frá Svíþjóð á 35:34,42 mín. Nina Chydenius frá Finnlandi varð þriðja á 35:45,79 mín.

Tímarnir í hlaupinu voru ágætir miðað við aðstæður sem voru frekar erfiðar en stífur vindur var á keppnissvæðinu.

Samhliða NM í 10 km hlaupi fór Vormót HSK fram á Selfossi í dag en þetta er í fyrsta sinn sem keppt er á nýja frjálsíþróttavellinum.

Fyrri greinLeitað að fólki á öskusvæðinu
Næsta greinMikilvægt að huga að skepnunum á gossvæðinu