Fótbolti.net spáir því að Hamar fari upp úr 4. deild karla í knattspyrnu í sumar en Árborg og Stokkseyri verði í miðjumoði í sínum riðli.
Keppni í 4. deildinni hófst í kvöld en sunnlensku liðin hefja keppni á morgun. Deildinni er skipt upp í fjóra riðla þar sem tvö efstu lið hvers riðils komast í úrslitakeppnina þar sem tvö sæti í 3. deild eru í boði.
Hamar leikur í D-riðli og spáir fotbolti.net því að Hamar vinni riðilinn.
1. Hamar
Eftir fall úr 3. deild þá var Hamar nálægt því að komast í úrslitakeppnina í fyrra. Hamarsmenn hafa verslað í vetur og bætt við sig mörgum gríðarlega sterkum leikmönnum svo sem Hrannar Einarsson frá Fram, Benedikt Óla Breiðdal frá ÍR, Liam Killa frá Ægi og Tómas Ingva Hassing frá Árborg svo að fáeinir séu nefndir. Hamar sigraði C-deild Lengjubikarsins í vor og það virðist bara koma eitt til greina hjá liðinu í sumar og það er að fara beint upp. Við spáum því að Hamarsmenn taki toppsætið enda fátt annað sem kemur til greina hjá liðinu í ár.
Árborg og Stokkseyri eru saman í A-riðli og spáir fotbolti.net því að Árborg verði í 3. sæti riðilsins og Stokkseyri í 4. sætinu.
3. Árborg
Árborgarar hafa alltaf verið lið sem erfitt er að mæta, þeir tapa sjaldan stórt og gefa alltaf leik. Þeir komust í úrslitakeppnina í fyrra en virðast vera þunnskipaðri í ár en í fyrra. Árborgarar ætla sér alltaf í úrslitakeppni og eru til alls líklegir. Þeir fengu þó 10 mörk á sig í 5 leikjum í Lengjubikarnum og það getur verið ansi dýrt að þurfa alltaf að skora þrjú mörk til að vinna leiki. Þá var hópurinn þunnskipaður í Lengjubikarnum og því spurning hversu mikla breidd þeir hafa. Þá hafa þeir misst tvo af algjörum lykilmönnum sínum frá því í fyrra í Eiríki Raphael Elvy og Tómasi Hassing og gæti það reynst dýrt.
4. Stokkseyri
Stokkseyringar hafa ekki verið að gera neina svakalega hluti undanfarin ár en alltaf bætt sig milli tímabila og hafa verið að spilað vel í vor og eru til alls líklegir í ár. Þeir virðast vera í betra standi núna en undanfarin ár og gætu vel komið á óvart í sumar. Örvar Hugason og Þórhallur Aron Másson hafa verið að skora mikið í Lengjubikarnum og verða vera heitir ætli þeir sér að standa sig í sumar, varnarleikurinn hefur hinsvegar verið vandamál enda fengu þeir þrjú mörk að meðaltali í leik á sig í Lengjubikarnum. Þeir hafa fengið inn reynslumikla stráka í bland við unga stráka sem hafa fengið mikið af tækifærum á seinustu árum. Reynslunni ríkari er þeim spáð 4.sæti í ár.
Sem fyrr segir hófst keppni í 4. deildinni í kvöld. Á morgun, miðvikudag, tekur Hamar á móti Kóngunum á Grýluvelli kl. 20:00. Á sama tíma mætir Árborg Berserkjum á útivelli. Stokkseyringar eiga leik á fimmtudagskvöldið þegar Mídas kemur í heimsókn á Stokkseyri kl. 20:00.