Það verður mikið um dýrðir á Selfossi í dag þegar handboltadeild Umf. Selfoss blæs til stjörnuleiks í Vallaskóla í dag og styrktardansleiks í Hvítahúsinu í kvöld.
Fyrrum leikmenn Selfossliðsins munu mæta á svæðið og keppa sín á milli í æsispennandi og tilþrifamiklum handboltaleik. Leikurinn hefst kl. 16 í íþróttahúsi Vallaskóla en húsið opnar kl. 15.
Allir þekkja afreksíþróttamennina og handboltahetjurnar sem spilað hafa með Selfossliðinu í gegnum tíðina en meðal þeirra sem boðað hafa komu sína í leikinn eru Sigurður Valur Sveinsson, Sigurjón Bjarnason, Valdimar Grímsson, Sigfús Sigurðsson, Einar Guðmundson og Einar Gunnar Sigurðsson.
Í kvöld er síðan matur og ball í Hvítahúsinu með Stuðlabandinu. Þar verður m.a. uppboð þar sem boðnar verða upp treyjur frá evrópskum stórliðum.