Keppni í Olís-deild karla í handbolta hefst í kvöld en Selfyssingar sækja þá Afureldingu heim í Mosfellsbæ.
Selfyssingar eru nýliðar í deildinni og ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í fyrstu leikjunum, sem eru gegn Aftureldingu, Val og Haukum. Fyrsti heimaleikur liðsins er gegn Haukum þann 19. september.
Í árlegri spá leikmanna og forráðamanna liðanna í deildinni er Selfyssingum spáð 9. og næst neðsta sæti. Leikmannahópur Selfyssinga er svipaður en liðið hefur endurheimt Einar Sverrisson, Guðna Ingvarson og Árna Stein Steinþórsson, auk þess sem markvörðurinn efnilegi Grétar Ari Guðjónsson er kominn að láni frá Haukum.
Kvennalið Selfoss hefur leik í Olís-deildinni á laugardaginn þegar Fram kemur í heimsókn í Vallaskóla. Átta lið leika nú í Olís-deild kvenna og er Selfyssingum spáð 7. sæti í spá leikmanna og forráðamanna liðanna.
Keppni í 1. deild karla hefst þann 16. september en Mílan mætir þá ÍR á útivelli. Fyrsti heimaleikur Mílunnar er gegn Hömrunum þann 23. september. Mílunni er spáð 7. sæti í deildinni en tólf lið leika í 1. deildinni.