Frekari keppni á Íslandsmótinu í handknattleik hefur verið aflýst vegna COVID-19 faraldursins og engir Íslandsmeistarar verða krýndir árið 2020.
Stjórn HSÍ sendi út tilkynningu í kvöld þar sem ákvörðunin var kynnt en í dag fundaði stjórnin meðal annars með formönnum aðildarfélaga sambandsins.
Staðan í deildunum verður látin standa og því er Fram deildarmeistari í Olís-deild kvenna og Valur deildarmeistari í karlaflokki.
Afturelding fellur úr Olísdeild kvenna og FH-ingar fara upp. FH-konur eru efstar í 1. deildinni með 31 stig, einu stigi á undan Selfyssingum, þegar nítján umferðir af 22 höfðu verið leiknar.
Íslandsmeistarar Selfoss urðu í 5. sæti Olísdeildar karla þetta árið.
Tilkynning HSÍ:
„Stjórn HSÍ ákvað á fundi sínum í kvöld að aflýsa öllu frekara mótahaldi á vegum sambandsins. Ákvörðun þessi er tekin í ljósi þess að yfirvöld hafa ákveðið að framlengja samkomubanni til 4. maí nk. og er því ljóst að ekki verður unnt að hefja keppnir að nýju þar sem félögin þarfnast að minnsta kosti 2-3 vikna undirbúnings til að geta hafið leik.
Í framhaldi af þessu ákvað stjórn HSÍ að núgildandi staða í mótum myndi standa og samkvæmt því eru deildarmeistarar Olís deildar kvenna Fram og deildarmeistarar Olís deildar karla Valur.
Tvö neðstu lið Olís deildar karla (HK og Fjölnir) falla í Grill 66 deild karla og neðsta lið Olís deildar kvenna (Afturelding) fellur í Grill 66 deild kvenna. Sæti í Olís deild karla fá tvö efstu lið Grill 66 deildar karla (Þór Ak. og Grótta) og sæti í Olís deild kvenna fær efsta liða Grill 66 deildar kvenna (FH).
Ekki verða útnefndir Íslandsmeistarar fyrir þetta keppnistímabil.“