Hanna áfram á Selfossi

Handknattleikskonan Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir hefur undirritað nýjan tveggja ára samning við handknattleiksdeild Umf. Selfoss.

Hanna hefur verið ein af burðarásum hins unga og efnilega liðs Selfoss í meistaraflokki kvenna og skorað 206 mörk í 36 leikjum með liðinu þau tvö ár sem það hefur leikið í efstu deild.

Í fyrra var Hanna valin efnilegasti leikmaður efstu deildar kvenna á lokahófi HSÍ, eins var hún heiðruð sem markahæsti leikmaður Selfoss og valin sóknarmaður ársins á lokahófi handknattleiksdeildarinnar.

Að sögn Þorsteins Rúnars Ásgeirssonar, formanns handknattleiksdeildarinnar, er mikil ánægja innan félagsins með það að Hrafnhildur Hanna verði áfram á Selfossi og er það liður í áframhaldandi uppbyggingu Selfoss á starfi kvennahandboltans.

Fyrri greinÞorsteinn Hjartar: Leið til aukins námsárangurs í Árborg
Næsta greinFramboðslisti T-listans samþykktur