Systurnar Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og Hulda Dís Þrastardóttir hafa framlengt samninga sína við handknattleikdsdeild Selfoss.
Hrafnhildur Hanna hefur, þrátt fyrir ungan aldur, verið einn allra öflugasti leikmaður Olís-deildar kvenna undanfarin ár og er orðin fastamaður í A-landsliði Íslands þar sem hún hefur spilað 22 landsleiki og skorað í þeim 47 mörk. Hún sleit krossband í vor og verður væntanlega ekki komin inn á keppnisvöllinn aftur fyrir en eftir áramót.
Hulda Dís hefur, þrátt fyrir enn yngri aldur, verið fastamaður í liði Selfoss undanfarin og er einn allra sterkasti varnarmaður deildarinnar.
Handknattleiksdeild Selfoss fagnar því að þær systur skuli halda tryggð við sitt heimafélag og hlakkar til næsta vetrar með þær innanborðs.
Í fréttatilkynningu frá stjórn deildarinnar kemur fram að frekari frétta af leikmannamálum hjá Selfoss verði að vænta á næstu dögum.