Hestaíþróttafólkið Hanna Rún Ingibergsdóttir og Árni Björn Pálsson voru útnefnd íþróttakona og íþróttakarl ársins 2024 í Rangárþingi ytra við hátíðlega athöfn í safnaðarheimilinu á Hellu síðastliðinn laugardag.
Hanna Rún hlaut titilinn gæðingaknapi Geysis hjá Hestamannafélaginu Geysi árið 2024. Hún kom fram með gríðarlegan fjölda hrossa á árinu en það sem stóð hæst var án nokkurs vafa 3. sæti í A-flokki á Landsmóti hestamanna á Sirkus frá Garðshorni á Þelamörk. Hanna Rún tók virkan þátt í keppni á árinu 2024 með góðum árangri í nánast öllum greinum og var valin í A-landslið Íslands í hestaíþróttum fyrir komandi tímabil.
Árni Björn er fjölhæfur afreksknapi og var árangur hans á árinu 2024 ótrúlegur. Hæst ber að nefna sigur í A-flokki gæðinga á Landsmóti þar sem hann og Álfamær áttu frábærar sýningar. Þá átti Árni einnig eftirminnilegar sýningar á Seðli frá Árbæ í A flokki. Árni Björn er Íslandsmeistari í tölti á Kastaníu frá Kvistum, hlutu þau silfurverðlaun á Landsmóti í sömu grein og eru efst á WR-listanum í þessari grein í ár. Hann náði góðum árangri á skeiðbrautinni og einnig stóð hann sig vel á kynbótabrautinni þar sem hann sýndi 78 hross í kynbótadómi í 106 sýningum með frábærum árangri. Árni Björn hlaut nafnbótina knapi ársins 2024 á uppskeruhátíð Landsambands hestamannafélaga og deildar hrossabænda inn BÍ.
Fjöldi íþróttamanna var heiðraður á samkomunni á laugardag ásamt sjálfboðaliðum og ljóst er að enginn skortur er á öflugu íþróttafólki á öllum aldri í Rangárþingi ytra.
Það er heilsu-, íþrótta- og tómstundanefnd sem kallar eftir tilnefningum og sér um að úthluta viðurkenningunum.