Frjálsíþróttamaðurinn Haraldur Einarsson var valinn íþróttamaður ársins hjá Ungmennafélaginu Vöku í Villingaholtshreppi en aðalfundur félagsins fór fram sl. mánudag.
Haraldur var einnig verðlaunaður fyrir besta afrekið á árinu en hann hljóp 60 m hlaup innanhúss á 7,11 sek og fékk fyrir það 904 stig samkvæmt alþjóðastigatöflu.
Bikar fyrir besta afrek samkvæmt unglingastigatöflu hlaut Ýmir Atlason en hann stökk 2,05 m í langstökki án atrennu og fyrir það fékk hann 975 stig.
Félagsmálabikarinn hlaut Kristín Stefánsdóttir á Hurðarbaki. Kristín hefur starfað af krafti í félaginu og er alltaf boðin og búin að rétta fram hjálparhönd. Hún hefur t.d. verið ötul í búningamálum leikdeildarinnar og á hverju hausti stendur hún svo yfir pottunum og síður mikið magn af mör sem hún svo gefur ungmennafélaginu fyrir árlega skötuveislu.
Stjórn Vöku gaf öll kost á sér áfram og var endurkjörin undir forystu Guðmundu Ólafsdóttur.
Sautján manns mættu á fundinn og fóru fram líflegar umræður um ýmis mál. Í fundarhléi voru bornar fram skúffukökur og mjólk í boði Hallfríðar Óskar Aðalsteinsdóttur, Kristínar Tómasdóttur og Fanneyjar Ólafsdóttur.