73. íþróttamót Samhygðar og Vöku fór fram við Þjórsárver í blíðskaparveðri í gær. Lið Vöku sigraði á mótinu.
Hinir 28 keppendur mótsins voru flestir ungir og sprækir en þó voru þarna nokkrir sem hófu keppni fyrir áratugum og hafa ekki enn sagt sitt síðasta orð. Sex fá stig í hverri grein og Bjarki Reynisson gerði sér lítið fyrir og hlaut stig í fjölmennri kringlukastkeppni. Bjarki er einn af hinum gömlu afreksmönnum en er nú orðinn 66 ára og elsti keppandi sem hefur krækt í stig á mótunum.
Eplið fellur ekki langt frá eikinni því dóttir hans, Ingunn Harpa, varð stigahæst kvenna með 37 stig. Haraldur Einarsson hlaut einu stigi meira og var stigahæstur karla. Hann vann besta afrekið með því að stökkva 13,43 m í þrístökki en 100 metra hlaup Ingunnar Hörpu á 14,5 sek var besta afrek kvenna. Öll þrjú eru liðsmenn Vöku sem sigraði á mótinu með 176 stigum gegn 117 stigum Samhygðar.
Kristinn Þór Kristinsson Samhygð, nýkrýndur 800 metra meistari í Bikarkeppni FRÍ sigraði í 800 metra hlaupinu á nýju mótsmeti 2:07,9 mín og lagði aðra keppendur langt að baki sér. Hann er nú orðinn einn fremsti millivegalengdahlaupari landsins og langt síðan mótsgestir hafa séð aðra eins yfirburði.
Mótið fór að vanda vel fram, keppendur hvöttu hver annan til dáða, jafnt félaga sem andstæðinga. Vökumenn buðu til veglegrar veislu að lokinni keppni í tilefni 75 ára afmælis félagsins. Þar var minnst Unnar Stefánsdóttur frá Vorsabæ sem lést nýlega. Unnur átti glæsilegan þátttökuferil og var langsamlega stigahæsti keppandi mótanna gegnum tíðina. Hún keppti á 38 mótum á árunum 1963-2007, vann 61 sigur og hlaut samtals 629 stig.
Verðlaun voru afhent í lokin og silfurskjöldinn hlaut Haraldur Einarsson stigahæsti keppandi Vöku. Keppendur og gestir fóru glaðir af vettvangi og ákveðnir í að sækja næsta mót að ári.
J.M.