Harley Willard í Selfoss

Bjarni Jóhannsson býður Harley Willard velkominn á Selfoss. Ljósmynd/Selfoss fótbolti

Enski sóknarmaðurinn Harley Willard hefur samið við knattspyrnudeild Selfoss til eins árs. Hann kemur á frjálsri sölu til félagsins en hann lék síðast með KA í Bestu deildinni.

Willard kom fyrst til landsins árið 2019 þegar hann samdi við Víking Ólafsvík. Þar spilaði hann í þrjú tímabil áður en hann gekk í raðir Þórs á Akureyri. Hann skipti yfir í KA eftir eitt tímabil þar og hefur leikið með þeim gulklæddu á Akureyri síðustu tvö tímabil.

Willard hefur leikið yfir 170 leiki hér á landi og skorað í þeim yfir 60 mörk og lagt upp fjölda marka.

„Eftir að hafa átt í mjög góðum viðræðum við Selfoss þá var ekki spurning í mínum huga að semja við félagið. Aðstæður hér eru til fyrirmyndar, það er flott fólk í kringum félagið, liðið er ungt og þakið er hátt,“ segir Harley.

„Ég er búin að eiga frábæran tíma á Akureyri undanfarin ár en mér fannst vera kominn tími á breytingar og ég er spenntur að flytja á Selfoss,“ segir Harley ennfremur.

Fyrri grein„Of spennandi til að láta ekki á þetta reyna“
Næsta greinAmma kom á tveimur hjólum til að bjarga mér