Hársbreidd frá stigi eftir frábæran endasprett

Harpa Valey Gylfadóttir lék vel í dag, bæði í sókn og vörn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss velgdi Fram verulega undir uggum í úrvalsdeild kvenna í handbolta þegar liðin mættust í Lambhagahöllinni í dag. Lokatölur urðu 30-29, Fram í vil.

Jafnræði var með liðunum á upphafsmínútunum en þegar rúmar tíu mínútur voru liðnar og staðan 5-5 komu fjögur mörk í röð frá Fram. Selfoss náði að minnka muninn í tvö mörk en þá tók Fram aftur á sprett og staðan var 17-11 í hálfleik.

Fram hélt öruggri forystu lengi vel framan af seinni hálfleiknum en þegar tíu mínútur voru eftir hljóp óvænt spenna í leikinn. Selfoss skoraði fimm mörk í röð og jafnaði 27-27 þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir. Jafnt var á öllum tölum eftir það en markvörður Fram varði tvívegis frá Selfyssingum á síðustu 30 sekúndum leiksins og tryggði liði sínu eins marks sigur.

Hulda Dís Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 8/3 mörk, Perla Ruth Albertsdóttir skoraði 7/1, Harpa Valey Gylfadóttir skoraði 6 mörk og sendi 6 stoðsendingar, Katla María Magnúsdóttir skoraði 4 mörk, Arna Kristín Einarsdóttir 2 og þær Sara Dröfn Ríkharðsdóttir og Eva Lind Tyrfingsdóttir skoruðu 1 mark hvor.

Ágústa Tanja Jóhannsdóttir varði 9 skot og var með 23% markvörslu.

Selfoss er áfram í 4. sæti deildarinnar með 13 stig en Fram er í 2. sætinu með 24 stig.

 

Fyrri greinMættu ofjörlum sínum á Meistaravöllum
Næsta greinSofnuðu í sex mínútur