Knattspyrnufélag Árborgar og Vængir Júpíters áttust við í uppgjöri tveggja efstu liðanna í 4. deild karla í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld.
Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann, bæði lið sköpuðu sér fín færi í fyrri hálfleiknum sem þó var markalaus. Baráttan hélt áfram í seinni hálfleik dramatíkin var mikil, löglegt mark dæmt af Árborg, hiti og spjöld á varamannabekkina og almenn ástríðustemning í blíðunni á Selfossi.
Á 85. mínútu dró loksins til tíðinda þegar Hrvoje Tokic var felldur í vítateig Vængjanna og hann fór sjálfur á punktinn og skoraði af öryggi. Árborgarar féllu full djúpt á völlinn í kjölfarið og Almar Máni Þórisson náði að jafna metin fyrir Vængi eftir snarpa sókn á 5. mínútu uppbótartímans.
Lokatölur 1-1, þannig að Vængir halda toppsætinu en Árborg féll niður í 3. sætið þar sem KFK vann KÁ 5-0 á sama tíma og hrifsaði 2. sætið til sín. Þegar tvær umferðir eru eftir eru Vængir með 36 stig, KFK með 33 stig og Árborg með 32.
Önnur úrslit í 16. umferð 4. deildarinnar:
Álftanes 3 – 4 Skallagrímur
1-0 Sveinn Vattnes Ingólfsson (v ’11)
1-1 Viktor Ingi Jakobsson (’15)
1-2 Sölvi Snorrason (’22)
2-2 Björn Dúi Ómarsson (’29)
2-3 Maximiliano Ciarniello (’65)
3-3 Andri Janusson (’90+5)
3-4 Elís Gylfason (’90+8)
KÁ 0 – 5 KFK
0-1 Patrekur Búason (’32)
0-2 Basilio Jordán (’48)
0-3 Basilio Jordán (’78)
0-4 Róbert Leó Sigurðarson (’89)
0-5 Rodrigo Dias (’90+4)