Íslandsmeistarar Selfoss unnu magnaðan sigur á ÍR á útivelli í toppbaráttu Olísdeildar karla í handbolta í dag, 29-31.
Leikurinn var jafn fyrsta rúmlega korterið en þá náðu ÍR-ingar þriggja marka forskoti þegar þeir breyttu stöðunni úr 8-8 í 12-9. Selfyssingar létu þetta ekki mikið á sig fá, heldur jöfnuðu 13-13, en ÍR hafði forystuna í leikhléi, 16-15.
ÍR hafði frumkvæðið fystu tíu mínúturnar í seinni hálfleik en þá náðu Selfyssingar að jafna 21-21 og næstu mínútur var leikurinn í járnum. Í kjölfarið tóku Selfyssingar leikinn yfir og náðu fjögurra marka forskoti, 25-29, þegar níu mínútur voru eftir. Lokamínúturnar voru æsispennandi en ÍR skoraði fjögur mörk í röð og jöfnuðu 29-29. Íslandsmeistararnir héldu hins vegar haus og skoruðu síðustu tvö mörk leiksins eftir magnaðan lokakafla.
Hergeir Grímsson var markahæstur Selfyssinga með 9/5 mörk, Haukur Þrastarson skoraði 8, Atli Ævar Ingólfsson 4, Magnús Øder Einarsson skoraði 3 mörk og var sterkur í vörninni, Daníel Karl Gunnarsson og Reynir Freyr Sveinsson skoruðu báðir 2 og þeir Ísak Gústafsson og Guðjón Baldur Ómarsson skoruðu eitt mark hvor. Tryggvi Þórisson var sterkur í vörninni hjá Selfyssingum með 6 lögleg stopp.
Markmenn Selfyssinga vörðu lítið í leiknum, Einar Baldvin Baldvinsson klukkaði 5 bolta og var með 29% markvörslu og Sölvi Ólafsson varði 4 og var með 21% markvörslu.
Með sigrinum fóru Íslandsmeistararnir upp fyrir ÍR á töflunni en Selfoss hefur nú 17 stig í 3. sæti deildarinnar en ÍR er í 5. sæti með 16 stig.