Það var háspenna í leikjum sunnlensku liðanna í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Hamar vann nauman sigur á Egilsstöðum á meðan Selfoss tapaði naumlega á heimavelli gegn Ísfirðingum.
Hamar byrjaði betur í leiknum í Brauð og co. höllinni á Egilsstöðum og leiddi 17-26 eftir 1. leikhluta. Höttur minnkaði bilið í 2. leikhluta og staðan var 43-45 í leikhléi. Heimamenn komust yfir í 3. leikhluta en Hamar náði aftur frumkvæðinu í síðasta leikhlutanum sem var æsispennandi. Höttur komst yfir, 89-86, þegar ein og hálf mínúta var eftir en Hamar svaraði með sjö stigum í röð. Höttur átti síðustu sókn leiksins og hefði getað jafnað með tveimur vítaskotum á lokasekúndunni en síðara skotið geigaði og Hamar sigraði með eins stigs mun, 92-93.
Everage Richardson var frábær í liði Hamars í kvöld með 41 stig, 9 fráköst, 5 stoðsendingar og 8 fiskaðar villur.
Á Selfossi var einnig boðið upp á hörkuleik þar sem Vestri frá Ísafirði var í heimsókn. Gestirnir voru sterkari í fyrri hálfleik og leiddu 39-50 í hálfleik. Selfyssingar svöruðu fyrir sig í 3. leikhluta og þegar rúmar þrjár mínútur voru liðnar af 4. leikhluta var staðan orðin 69-69. Selfoss komst fimm stigum yfir í kjölfarið en á lokakaflanum fór allt í handaskol hjá heimamönnum. Selfoss skoraði ekki stig á síðustu tveimur og hálfri mínútunum af leiknum á meðan Vestramenn röðuðu niður sjö vítaskotum og sigruðu 84-89.
Michael Rodriguez var góður í liði Selfoss með 29 stig og 8 fráköst og Ari Gylfason átti sömuleiðis mjög góðan leik.
Hamar er í toppsæti deildarinnar með fullt hús stiga en Selfoss er í 6. sætinu og hefur ekki unnið leik.
Tölfræði Hamars: Everage Lee Richardson 41/9 fráköst/5 stoðsendingar, Geir Elías Úlfur Helgason 14, Marko Milekic 12/7 fráköst, Gabríel Sindri Möller 10, Dovydas Strasunskas 10, Florijan Jovanov 5, Oddur Ólafsson 1/5 stoðsendingar.
Tölfræði Selfoss: Michael Rodriguez 29/8 fráköst/5 stoðsendingar, Ari Gylfason 21/4 fráköst, Björn Ásgeir Ásgeirsson 12/4 fráköst, Snjólfur Marel Stefánsson 12/6 fráköst, Maciek Klimaszewski 6/6 fráköst, Adam Smari Olafsson 2, Hlynur Freyr Einarsson 2/5 fráköst.