Hrunamenn og Vestri áttust við í kvöld í æsispennandi leik í 1. deild karla í körfubolta á Flúðum.
Leikurinn var í járnum allan tímann, Hrunamenn voru skrefinu á undan megnið af fyrri hálfleik og staðan var 43-40 í hálfleik.
Seinni hálfleikur var æsispennandi. Vestri var með örlítið forskot þegar komið var fram í 4. leikhluta en Hrunamenn jöfnuðu á lokamínútunum þrátt fyrir að hafa átt í basli í sókninni. Gestirnir gerðu hins vegar út um leikinn á vítalínunni þegar sex sekúndur voru eftir og Hrunamenn náðu ekki að jafna í lokasókninni þar sem allar leiðir að körfunni voru lokaðar. Lokatölur 74-76.
Corey Taite var öflugur hjá Hrunamönnum með 28 stig og Karlo Lebo skoraði 15, auk þess að taka 11 fráköst.
Hrunamenn eru í 8. sæti deildarinnar með 4 stig en Vestri er í 5. sæti með 8 stig.
Tölfræði Hrunamanna: Corey Taite 28/5 stoðsendingar, Karlo Lebo 15/11 fráköst, Orri Ellertsson 10, Yngvi Freyr Óskarsson 8/5 fráköst, Eyþór Orri Árnason 5/4 fráköst, Halldór F. Helgason 4, Þórmundur Smári Hilmarsson 4.