Íslandsmótið í hestaíþróttum hófst á Brávöllum á Selfossi í morgun. Hestamannafélagið Sleipnir sér um mótshaldið.
Forseti bæjarstjórnar, Sleipnismaðurinn Ari Björn Thorarensen, setti mótið í morgun en síðan hófst keppni í fimmgangi.
Margrét Katrín Erlingsdóttir, fjölmiðlafulltrúi mótsins, sagði í samtali við sunnlenska.is að um tvöhundruð hestar væru skráðir í mótið og væri von á hátt í þúsund áhorfendum í brekkuna um helgina. Undirbúningur vegna mótahalds sem þessa er mikill og hefur verið gert átak í að fegra umhverfið á Brávöllum auk þess sem kaffihús hefur verið sett upp í Sleipnishöllinni.
Síðdegis í dag verður keppt í fjórgangi og kl. 21:45 í kvöld verður keppt í gæðingaskeiði.
Mótinu lýkur um miðjan dag á laugardag en eftir hádegi á laugardag verða A úrslit í tölti, fjórgangi og fimmgangi.