Selfoss tapaði naumlega fyrir Haukum, 27-29, í toppslagnum í Olísdeild karla í handbolta í troðfullri Hleðsluhöllinni á Selfossi í kvöld.
Það var reyndar svo að færri komust að en vildu og þurfti að vísa fólki frá, sem hefur ekki gerst áður í Iðu.
Leikurinn var í járnum allan tímann og skiptust liðin á um að gera áhlaup en munurinn var aldrei minni en þrjú mörk, á hvorn veginn sem var.
Staðan var 15-13 í leikhléi en Haukar jöfnuðu 16-16 snemma í seinni hálfleik. Þegar leið á leikinn tóku Haukar frumkvæðið og komust tveimur mörkum yfir og Selfyssingar náðu ekki að brúa það bil.
Haukar juku því forskot sitt í deildinni og eru með aðra höndina á deildarmeistaratitlinum. Haukar eru með 31 stig en Selfoss 28 í 2. sæti og hafa Hafnfirðingarnir betur í innbyrðis viðureignum.
Elvar Örn Jónsson var markahæstur Selfyssinga með 9/3 mörk, Árni Steinn Steinþórsson og Haukur Þrastarson skoruðu báðir 5 mörk, Atli Ævar Ingólfsson 3, Nökkvi Dan Elliðason og Hergeir Grímsson 2 og Alexander Már Egan 1.
Sölvi Ólafsson varði 7 skot í marki Selfoss og var með 28% markvörslu og Pawel Kiepulski varði 3 skot og var með 21% markvörslu.
Þá er ótalinn þáttur Sverris Pálssonar í leiknum en hann var frábær í vörninni með 10 löglegar stöðvanir og varnareinkunnina 10,0.