Keppni í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik hófst í kvöld og Hamar/Þór heimsótti Hauka í Hafnarfjörðinn. Haukar höfðu betur, 93-84.
Þetta er í fyrsta sinn sem Þór Þorlákshöfn á lið í úrvalsdeild kvenna en Hamarskonur léku þar um árabil og urðu meðal annars deildarmeistarar árið 2011. Nýliðum Hamars/Þórs er spáð 9. sæti í deildinni í vetur en Haukum 3. sæti.
Hamar/Þór byrjaði af krafti og var skrefinu á undan framan af 1. leikhluta en Haukar komust yfir þegar tæpar tvær mínútur voru eftir og staðan var 29-28 eftir tíu mínútna leik. Annar leikhluti var í járnum eins og sá fyrsti og liðin skiptust á að leiða en Haukar skoruðu fimm síðustu stigin í fyrri hálfleik og voru yfir í hálfleik, 48-47.
Haukar höfðu vind í seglin í upphafi 3. leikhluta og þær komust fljótlega í 58-52. Hamar jafnaði 65-65 en staðan var 73-66 þegar síðasti leikhlutinn hófst. Þar byrjuðu Haukar betur og 12-4 áhlaup þeirra á þessum tímapunkti lagði grunninn að sigri þeirra. Munurinn varð mestur þrettán stig á lokakaflanum og þær sunnlensku náðu ekki að svara fyrir sig.
Abby Beeman var stigahæst hjá Hamri/Þór með 25 stig og 12 stoðsendingar og Kristrún Ríkey Ólafsdóttir skilaði góðu framlagi með 14 stig og 15 fráköst.
Tölfræði Hamars/Þórs: Abby Beeman 25/6 fráköst/12 stoðsendingar, Hana Ivanusa 19, Kristrún Ríkey Ólafsdóttir 14/15 fráköst, Anna Soffía Lárusdóttir 12/5 fráköst, Teresa Da Silva 5, Matilda Sóldís Svan Hjördísardóttir 4, Jóhanna Ýr Ágústsdóttir 3, Bergdís Anna Magnúsdóttir 2.