Selfoss tók á móti Haukum í Olísdeild kvenna í handbolta í gærkvöldi og varð af hörkuleikur.
Jafnt var á öllum tölum fyrstu 12 mínúturnar en í stöðunni 5-5 skoruðu Selfyssingar þrjú mörk í röð og breyttu stöðunni í 8-5. Haukar svöruðu fyrir sig, jöfnuðu 10-10 og staðan var 13-13 í hálfleik.
Það var allt í járnum í seinni hálfleiknum og jafnt á flestum tölum en á síðustu tíu mínútum leiksins náðu Haukar frumkvæðinu. Þær skoruðu þrjú mörk í röð og þá var staðan orðin 20-23. Selfoss náði ekki að brúa bilið á lokakaflanum og Haukar sigruðu 24-27.
Hulda Hrönn Bragadóttir var markahæst Selfyssinga með 8 mörk, Perla Ruth Albertsdóttir skoraði 5/2, Arna Kristín Einarsdóttir og Eva Lind Tyrfingsdóttir 4, Harpa Valey Gylfadóttir 2 og Hulda Dís Þrastardóttir 1. Cornelia Hermansson varði 12/1 skot í marki Selfoss og var með 30,8% markvörslu.